Sunday, December 28, 2008

Jólin, Onsen og Skíði

Jæja. Gleðileg jól allir saman :). hér í japan er orðið ansi jólalegt, snjór sem maður veður upp undir hné og jólaljós í 2 húsum. lífið er gott. 24. desember fórum við nokkur saman út að borða. við ætluðum að fara á agalega fínt jólahlaðborð á hóteli og dressa okkur fínt upp en þegar það kom í ljós að maturinn átti að kosta 9800 yen og drykkir ekki innifaldir ( vínglasið kostaði 900 yen!) hættum við snögglega við. þar af leiðandi að hér í japan er mikið um að fólk fari út að borða á aðfangadag var ekki um auðugan garð að gresja fyrir 12 manns að finna sér borð svo við enduðum á jólamatseðli á ítölskum veitingastað í mollinu! þetta er í fyrsta( og síðasta) skiptið sem ég eyði jólunum í molli!. eftir það fórum við svo þessi evrópsku á Vamos til Tonys þar sem okkur hafði verið boðið þar í jólatjútt. vinir Gill (kínversk/enska vinkona mín) komu í heimsókn yfir jólin svo að sjálfsögðu var enn meiri ástæða til að fara á Vamos og kynna þá fyrir Tony.

það var tjúttað til 6 um morguninn. þegar heim var komið ákvað ég að hringja í familíuna í drábbanum og spjalla...... þau voru að opna pakkana og ég var á eyrnasneplunum! stemming það :)
daginn eftir vorum við síðan ræst um 10 leytið til þess að fara til Asahi gara í onsen og hótelgistingu sem einn áfanginn minn hafði ákveðið að gera saman. við þessi evrópsku sátum skelþunn í lestinni og rútunni á leiðinni þanngað en mikið var ég nú fegin að drulla mér fram úr. onsenið var æðislegt!

onsen er svona heit laug, úti, sem maður baðar sig í. Japanarnir gera þetta mjög mikið til að slaka á og hér á hokkaido er mjög mikið af þessum laugum. þetta er svona eins og blanda af Bláa lóninu og sundlaug. við böðuðum okkur þarna 2-3 langt fram eftir morgni og spiluðum únó inn á milli. mjög kósí. annar í jólum fór í algert letikast. vaknaði ekki fyrr en 2 enda mjöööög langþreytt. hékk í herberginu mínu ein með sjálfri mér allan daginn það var mjög ljúft og notó :) í gær var svo haldið eitt lítið fallegt beerpong kvöld. við urðum að kenna englendingunum þennan fallega jólalega amríska leik!

fór að sofa um 5 og var vakin hálf níu til að eyða deginu á Asirigawa skíðasvæðinu. ég var svo þreytt og þunn að ég gleymdi myndavélinni en ég fer aftur í janúar á námskeið og þá verða teknar myndir. ég sit núna heima og er mjög þægilega þreytt. ég held að skíðadagur sé besta þynnkulyf í heimi. jólakossar og knús til allra og sérstakt ammilisknús til Tótu og Veilí :)

Tuesday, December 16, 2008

Tókíó, temple og ritgerð.

Ég fór til Tokyo, ég! þetta er mjög súrealísk upplifun að vera hérna. japan er fínt land en gvuuð minn góður hvað ég er orðin ástfangin af þessari borg! ég eyddi næstum öllum sunnudeginum í að labba um götur Tokyo með músik í eyrum. ég vildi að ég hefði haft bleika hárkollu á hausnum þá hefði upplifunin orðið jafnvel enn ótrúlegri. ég sá garðana sem umkringja keisarahöllina í Tokyo.

Aðalíbúðarhús keisarans er í Kyoto en þarna á hann "lítið" sumarhús. það er ekki hægt að sjá neitt af höllinni sjálfri og garðarnir sem eru alveg við húsið eru lokaðir fyrir almenningi. eftir að hafa labbað garðana endanna á milli labbaði ég út fyrir hliðin og vafraði inn í fjármálahverfið. þar fann ég stað þar sem eru 10-20 gosbrunnar og undarlegir bekkir umkringja svæðið.

og þarna sat ég í klukkutíma lesandi 100 ára einsemd. ég held að ég hafi sjaldan verið jafn stóísk. það var líka tjúttað í tokyo sem var gaman og við borðuðum á okkur gat á allskonar veitingahúsum. við sváfum í alvöru rúmum sem ég verð að segja við vorum eiginlega mest spennt fyrir áður en ferðin hófst eins sorglegt og það er að segja frá því.

síðasta vika hér í alþjóðlega húsinu hefur verið fremur stressandi. við áttum að skila 3000 orða ritgerð í dag í einu af fögunum okkar og af einhverjum ókunnum ástæðum voru allir að tapa sér úr stressi! ég er búin að heyra sögur af fólki sem hefur ekki sofið í 72 tíma, sem fór á djammið í gær til að létta á stressinu og sem fór út eftir að hafa lokið ritgerðinni klukkan 6 í morgun að skíða niður götuna! allt er nú hægt og á meðan fór ég í rúmið eins og gamla konan sem ég er um 11 leytið! flest okkar skráðu sig í byrjun árs í kúrs sem nefnist japanese affairs. héldum að þetta væri kúrs sem tengdist á einhvern hátt viðskiptalífinu.... nei nei þetta er eins og að vera komin aftur í leikskóla ( og ég er sko ekki að kvarta yfir því) því það eina sem við gerum er að fara í allskonar ferðir, skoða glerblásaraverkstæði, skoða fiskmarkað og í dag fórum við í búddaklaustur að hitta munk! ekki leiðinlegt það! þarna komst ég að því að Inga þýðir cause and effect fyrir japanska búddista. það er að allt sem við gerum hefur ástæðu og afleiðingu! munkurinn var alveg bit þegar kennarinn minn sagði honum að ég héti Inga en hann varð fyrir vonbrigðum þegar ég tjáði honum að ég væri ekki búddisti. það er gott að vera ástæða og afleiðing.

Thursday, December 4, 2008

Læknar og ávextir

verandi ég er náttúrulega frekar flókið. ég varð dálítið lasin og ákvað að fara til læknis hér í landi rísandi sólar. hljómar einfalt. ég fór inn á heilsugæslustöð, mjög mjög fína og fallega heilsugæslustöð. þar inni var ég umkringd af starfsmönnum og læknum um leið og ég kom inn. þau spurðu mig allskonar spurninga og að endingu var ég send í sneiðmyndatöku og CT skanna!!!! ekki alveg viss um að íslenskir læknar hefðu gert það!! það var ekkert að sem betur fer en læknirinn var viss um að ég væir með lausa taug sem er í sífelldum flogum og hann gaf mér flogalyf/taugalyf sem eru að bjarga mér núna... hvort sem það er vegna placebo effect eða vegna taflanna sjálfra þá líður mér allavega betur. er ennþá ansi bólgin í framan en hamstralúkkið er inn er það ekki?
Siggi og Erla hringdu í mig í gær bæði að kafna úr hlátri. við héldum kynningu á íslandi fyrir Otaru borg fyrir svona mánuði síðan og í áhorfenda"skaranum" var maður á áttræðisaldri sem ákvað að lesa sér meira til um ísland eftir kynninguna okkar. hann las um kreppuna sem við erum að ganga í gegnum og hann vorkenndi okkur fátæku íslendingunum svo langt frá heimalandinu svo mikið að hann ákvað að gera eitthvað fyrir okkur. það sem þessi góði samverji ákvað að gera var að fara með 10 kg af eplum og 10 af mandarínum á the international office með skilaboðum um að koma þeim til okkar svo við hefðum nú eitthvað að gleðja okkur við í desember mánuði. japanir eru svo gott fólk.
Tókíó á morgun! get ekki beðið þó ég sé eins og hamstur.
sé ykkur síðar næstum jólakveðjur frá japan og risa risa risa afmælisknús og kossar til Sibbiribbit sem er nú komin í hóp eldri fágaðri kvenna þessa hóps... bara veilí eftir í barnadeildinni. eigðu góðan dag sibban mín sakna þín kjærlig hilsen til drésa